top of page

Pizzaslaufa

Þessi uppskrift er eins og svo margar aðrar hérna á síðunni, nær eingöngu búin til úr hveiti, skyri og lyftidufti. Þetta er uppskrift sem krakkarnir mínir elska og svo sniðugt að búa þetta til með börnum, ekkert ger, engin bið bara græja og henda í ofninn. Ljómandi gott og hollt.


Innihald í um 14 pizzaslaufur:

-1 bolli hveiti/140 gr

-1 bolli hreint skyr/230 gr

-1 tsk lyftiduft/5 gr

-1tsk salt

-1 tsk pizza krydd

-70 gr rifinn ostur eða eftir smekk

-80 gr pizzasósa

-10 gr hveiti á borðið/til að hnoða úr


Setjið hveitið, skyrið, lyftiduftið og saltið saman í skál og hnoðað saman, mér finnst oft þægilegast að nota hrærivélina í þetta en það er líka hægt að hræra þetta í höndunum. Fletja út eins og stóra ferhyrnda pizzu, setja pizzasósu yfir allt og svo ostinn yfir, krydda svo með pizzakryddi. Svo flettir þú helmingnum af deiginu yfir hinn svo þetta líti út eins og samloka og skerð niður í um 14 lengjur. Taktu hverja lengju upp og snúðu tvisvar og legðu hana á bökunarpappírinn.

Ég baka þetta í blástursofni í 18-20 mín við 180 gráður.


Það er gott að hafa í huga að þessi uppskrift er gerð með það í huga að bæta próteini í næringuna, deigið á það til að vera klístrað og blautt, bættu þá aðeins meira hveiti við. Það er hægt að bæta kjötáleggi í slaufurnar ef fólk vill.


Næring í 100gr

Kolvetni: 30,8 gr

Prótein: 15,7 gr

Fita: 4,4 gr

Trefjar: 1,1 gr


Þú finnur þessa skráningu í Myfitnesspal appinu með því að leita að: Helga Magga eða pizzaslaufa.

(Skráningin á við um tilbúnar pizzaslaufur)


Smelltu hér til þess að sjá TikTok myndband af því hvernig ég bjó slaufurnar til.


Endilega láttu mig vita ef þú prufar þessa uppskrift með því að tagga mig á instagram @helgamagga

Comments


bottom of page